Meiðsli í herbúðum United

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, vonast til þess að endurheimta eitthvað af þeim leikmönnum sem misstu af bikarleiknum gegn Huddersfield þegar liðið sækir Sevilla heim í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn.

Marcus Rashford, Antonio Valencia, Ander Herrera, Phil Jones, Marcos Rojo, Marouane Fellaini og Zlatan Ibrahimovic voru fjarri góðu gamni í leiknum á móti Huddersfield á laugardaginn vegna meiðsla og Paul Pogba spilaði ekki vegna veikinda.

„Það er möguleiki á að Rashford, Herrera og Valencia verði klárir en ég veit ekki um Pogba. Rojo, Jones, Fellaini og Zlatan eiga litla möguleika á að vera með okkur gegn Sevilla,“ segir Mourinho en eftir leikinn gegn Sevilla tekur United á móti Chelsea í afar mikilvægum leik í toppbaráttu deildarinnar.

mbl.is