Rándýrt mark hjá Martial

Anthony Martial.
Anthony Martial. AFP

Markið sem Anthony Martial skoraði fyrir Manchester United á lokamínútunni gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford um síðustu helgi var ansi dýrt í orðsins fyllstu merkingu.

Martial jafnaði metin í 2:2 eftir að Newcastle komst í 2:0 en það var svo Sílemaðurinn Alexis Sánchez sem skoraði sigurmarkið undir lok leiksins.

Manchester United þarf nú að greiða Monaco 7,2 milljónir punda, jafnvirði 1,1 milljarðs króna. Ástæðan er sú að þegar Manchester United keypti Frakkann frá Monaco fyrir 36 milljónir punda fyrir þremur árum voru sett þau ákvæði inn í samninginn að ef Martial skoraði 25 mörk í deildinni fyrir árið 2019 þá þyrfti United að greiða áðurnefnda upphæð. Og 25. mark Martials í deildinni leit dagsins ljós á laugardaginn.

mbl.is