Vá, þvílíkur leikur

Klopp brosti breitt eftir sigurinn í kvöld.
Klopp brosti breitt eftir sigurinn í kvöld. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool var að vonum ánægður eftir sigur sinna manna gegn sterku liði Napoli í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Mohamed Salah skoraði eina mark leiksins á 34. mínútu leiksins og Liverpool tryggði sér annað sætið í riðlinum og þar með sæti í 16-liða úrslitunum.

„Vá þvílíkur leikur. Ég er ekki viss um að stjóri geti verið hreyknari af liði heldur en ég er. Strákarnir spiluðu frábæran leik og allt annan heldur en í fyrri leiknum. Hvernig við pressuðum þá þýddi að þeir þurftu að breyta sínum leik og við vorum sterkari aðilinn allan tímann,“ sagði Klopp.

„Mo Salah skoraði ótrúlegt mark og ég veit ekki hvernig Alisson fór að því að verja undir lok leiksins. Markvarsla hans var hreint út sagt mögnuð. En við hefðum hæglega getað skorað fleiri mörk. Það síðasta sem Sadio Mané fékk skipti ekki máli hvað varðaði stöðuna. Þetta var hraður og skemmtilegur leikur með fullt af skyndisóknum en við vorum tilbúnir í það.

UEFA hefur líklega haldið að það gæti haldið áfram með keppnina án Liverpool en það verður ekki strax. Ég sagði að ef við hefðum fallið úr leik þá hefði það ekki gerst í kvöld heldur hefði það gerst í Napoli þar sem við verðskulduðum tap. En í kvöld verðskulduðum við sigurinn,“ sagði Klopp.

Liverpool, sem um nýliðna helgi tyllti sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar, tekur á móti erkifjendum sínum í Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

mbl.is