Jóhann Berg og Kane báðir með

Jóhann Berg Guðmundsson verður aftur í búningi Burnley á laugardaginn.
Jóhann Berg Guðmundsson verður aftur í búningi Burnley á laugardaginn. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson hefur jafnað sig af meiðslum í kálfa og er klár í slaginn með Burnley sem mætir Tottenham í hádeginu á laugardag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Þetta staðfesti Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, á fréttamannafundi í dag. Jóhann lék síðast gegn Southampton 2. febrúar, eftir að hafa komið inn á sem varamaður gegn Manchester United þremur dögum fyrr, en áður hafði hann glímt við meiðsli í læri í þrjár vikur.

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, greindi sömuleiðis frá því að Harry Kane og Ben Davies væru báðir lausir við meiðsli og tilbúnir í leikinn. Kane meiddist í ökkla í leik gegn Manchester United þann 13. janúar. Dele Alli er hins vegar enn meiddur og óvíst er að Danny Rose geti spilað vegna veikinda.

mbl.is