Scholes hættur eftir mánuð í starfi

Paul Scholes, lengst til hægri, var ráðinn til Oldham fyrir …
Paul Scholes, lengst til hægri, var ráðinn til Oldham fyrir mánuði síðan. Ljósmynd/twitter-síða Oldham

Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, er hættur sem knattspyrnustjóri Oldham eftir aðeins mánuð í starfi.

Oldham leikur í ensku D-deildinni og var Scholes ráðinn 11. febrúar. Hann skrifaði undir samning sem gilda átti til sumarsins 2020.

Oldham vann 4:1-sigur í fyrsta leiknum undir stjórn Scholes en hefur síðan ekki unnið leik, heldur gert þrjú jafntefli og tapað þremur leikjum, síðast gegn toppliði Lincoln City í fyrrakvöld.

Í yfirlýsingu segir Scholes: „Mér varð því miður ljóst að ég myndi ekki geta starfað eins og ég ætlaði mér og hafði verið talið trú um að ég gæti áður en ég tók að mér þetta hlutverk. Ég vonaðist til að geta að minnsta kosti verið 18 mánuði sem stjóri hjá félaginu sem ég hef stutt alla mína ævi. Stuðningsmennirnir, leikmennirnir, vinir mínir og fjölskylda vita öll hve stoltur og spenntur ég var fyrir því að taka við starfinu. Ég óska stuðningsmönnum, leikmönnum og starfsliðinu, sem hefur verið stórkostlegt, alls góðs það sem eftir lifir leiktíðar og ég mun halda áfram að horfa og styðja félagið sem stuðningsmaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert