Sánchez með United til Barcelona

Alexis Sánchez.
Alexis Sánchez. AFP

Sílemaðurinn Alexis Sánchez er í 22 manna leikmannahópi Manchester United sem heldur til Barcelona í dag en United mætir Spánarmeisturum Barcelona í síðari leiknum í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á Camp Nou annað kvöld.

Sánchez hefur verið frá keppni síðustu sex vikurnar en er nú orðinn heill heilsu. Sílemaðurinn er öllum hnútum kunnugur á Camp Nou en hann lék með Barcelona frá 2011-14 og skoraði 39 mörk í 88 leikjum. Frá Barcelona fór Sánchez til Arsenal þar sem hann átti góðu gengi að fagna í fjögur ár. Hann gekk í raðir United í janúar í fyrra og hefur átt erfitt uppdráttar á Old Trafford en Sánchez hefur aðeins náð að skora fimm mörk í 41 leik með liðinu.

Matteo Darmian og Nemanja Matic eru einnig í 22 manna hópnum en þeir hafa verið á sjúkralistanum.

Það verður á brattann að sækja fyrir Manchester-liðið sem tapaði fyrri leiknum á Old Trafford í síðustu viku 1:0. Stuðningsmenn United vonast eftir öðru kraftaverki en liðið sló frönsku meistarana í Paris SG út í 16-liða á dramatískan hátt í París í síðasta mánuði.

mbl.is