Pogba fer ekki frá United

Paul Pogba er ekki á förum frá United.
Paul Pogba er ekki á förum frá United. AFP

Knattspyrnumaðurinn Paul Pogba verður alls ekki seldur frá Manchester United áður en félagsskiptaglugganum verður lokað um næstu mánaðarmót. Þetta staðfesti Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, á blaðamannafundi sínum fyrir leikinn gegn Wolves annað kvöld.

Orðrómar um brottför Frakkans frá United til Real Madrid á Spáni eða Juventus á Ítalíu hafa verið á kreiki í allt sumar og þá hefur Pogba sjálfur ýjað að félagsskiptum í viðtölum sínum við fjölmiðla, síðast eftir 4:0-sigur United gegn Chelsea á Old Trafford um síðustu helgi.

Solskjær gaf hins vegar lítið fyrir þau ummæli á blaðamannafundinum. „Þið viljið alltaf spyrja um Pogba, ekki satt? Ég hef engar áhyggjur af honum, hann verður áfram hjá okkur,“ sagði Norðmaðurinn tæpitungulaust.

„Ég hef ekki setið einn einasta blaðamannafund án þess að tala um Pogba og það verða alltaf spurningamerki í kringum hann en hann nýtur þess að spila hérna.“

mbl.is