Heldur sigurganga Liverpool áfram á Brúnni?

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Stórleikurinn í 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar verður án efa viðureign Chelsea og Liverpool sem eigast við Stamford Bridge á sunnudaginn.

Liverpool hefur byrjað tímabilið í ensku úrvalsdeildinni með látum. Liðið hefur unnið alla fimm leiki sína og er komið með fimm stiga forskot á Manchester City.

„Við förum á Brúna með það markmiði að vinna. Það hefur gengið vel hjá okkur í upphafi leiktíðar og við viljum halda þessu áfram,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á fréttamannafundi í morgun en Liverpool hrósaði síðast sigri í deildinni á Stamford Bridge í september 2016.

„Chelsea-liðið er virkilega spennandi fótboltalið og það eru ungir og góðir leikmenn í þeirra liði. Lampard gerði frábæra hluti með Derby og hann er að gera það líka hjá Chelsea. Við þurfum að spila virkilega vel til að ná góðum úrslitum,“ sagði Klopp.

Brasilíski markvörðurinn Alisson Becker er enn ekki klár í slaginn að sögn Klopps en Alisson varð fyrir meiðslum í kálfa í leiknum gegn Norwich í 1. umferðinni. Þá er sóknarmaðurinn Divock Origi tæpur. Miðjumaðurinn Naby Keita er enn ekki orðinn leikfær en hann hefur glímt við meiðsli í mjöðm og hefur ekkert komið við sögu á þessu tímabili. Klopp segir að Keita sé byrjaður að æfa á nýjan leik.

Chelsea hefur unnið tvo af fimm leikjum sínum undir stjórn Frank Lampard og er með 8 stig í sjötta sæti deildarinnar.

„Liverpool-liðið hefur spilað virkilega vel og er besta lið landsins. Þetta verður frábær prófraun fyrir okkur og við verðum að vera klárir,“ segir Lampard.

mbl.is