Liverpool með fullt hús stiga

Liverpool er með fullt hús stiga á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 1:0-sigur gegn Sheffield United á Bramall Lane í Sheffield í dag. Það var Georginio Wijnaldum sem skoraði sigurmark leiksins í síðari hálfleik.

Liverpool var meira með boltann í upphafi leiks en leikmenn Sheffield United voru mjög þéttir fyrir og vörðust vel. Sheffield United átti nokkrar ágætis marktilraunir á fyrstu tuttugu mínutum leiksins en leikmönnum liðsins gekk illa að hitta rammann. Sadio Mané fékk sannkallað dauðafæri á 33. mínútu þegar hann slapp einn í gegn en hann hitti ekki boltann og staðan áfram markalaus.

Á 43. mínútu átti Mané svo skot í stöng úr sannkölluðu dauðafæri í teignum eftir laglega skyndisókn Liverpool og staðan því markalaus í hálfleik. Síðari hálfleikurinn fór mjög rólega af stað og það var ekki fyrr en á 70. nínútu sem það dró til tíðinda. Divock Origi átti þá fyrirgjöf frá vinstri sem Jack O‘Connell skallaði frá marki. Frákastið datt fyrir Georginio Wijnaldum sem tók boltann í fyrsta á lofti og Dean Henderson í marki Sheffield missti boltann í gegnum klofið á sér.

Á 85. mínútu fékk Leon Clarke algjört dauðafæri til þess að jafna metin fyrir Sheffield en skot hans úr markteignum fór rétt yfir markið. Leikurinn fjaraði út eftir þetta og Liverpool fagnaði dýrmætum sigri. Liverpool er áfram í efsta sæti deildarinnar með 21 stig eftir fyrstu sjö leiki sína og hefur nú átta stiga forskot á Manchester City sem á leik til góða en Sheffield United er í tíunda sætinu með 8 stig.

Georginio Wijnaldum fagnar sigurmarki sínu gegn Sheffield United.
Georginio Wijnaldum fagnar sigurmarki sínu gegn Sheffield United. AFP
Sheffield United 0:1 Liverpool opna loka
90. mín. Uppbótartíminn fjórar mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert