Sjötti sigur Chelsea í röð (myndskeið)

Chelsea er komið í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 2:0-heimasigur gegn Crystal Palace á Stamford Bridge í London í dag. Staðan að loknum fyrri hálfleik var markalaus en þetta var sjötti sigur Chelsea í röð í deildinni.

Tammy Abraham kom Chelsea yfir á 52. mínútu með sínu tíunda deildarmarki á tímabilinu í einungis ellefu byrjunarliðsleikjum. Christian Pulisic innsiglaði svo sigur Chelsea með marki á 79. mínútu og þar við sat.

Chelsea er með 26 stig í öðru sæti deildarinnar og hefur eins stigs forskot á Manchester City sem sækir topplið Liverpool heim í stórleik helgarinnar. Crystal Palace hefur aðeins fatast flugið eftir góða byrjun en liðið er í tíunda sæti deildarinnar með 15 stig.

Á myndskeiðinu má sjá helstu atvik leiksins en hann var sýndur beint á Síminn Sport og líka á mbl.is.

Tammy Abraham fagnar tíunda deildarmarki sínu á leiktíðinni.
Tammy Abraham fagnar tíunda deildarmarki sínu á leiktíðinni. AFP
mbl.is