Benítez vill aftur í ensku úrvalsdeildina

Rafael Benitez vill snúa aftur til Englands.
Rafael Benitez vill snúa aftur til Englands. AFP

Spænski knattspyrnustjórinn Rafa Benítez hefur mikinn áhuga á að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina. Benítez hætti hjá Newcastle eftir síðustu leiktíð og tók við Dalian Yifiang í Kína. Þar er hann á himinháum launum, en liðið er í níunda sæti kínversku úrvalsdeildarinnar eftir 27 leiki. 

Benítez var orðaður við West Ham í enskum fjölmiðlum í dag, en sætið hjá Manuel Pellegrini er heitt þar sem liðið hefur ekki unnið í sex leikjum í röð og er í sextánda sæti deildarinnar, fimm stigum fyrir ofan fallsætin. 

Spánverjinn mun hins vegar ekki flytja til Englands fyrr en í fyrsta lagi í sumar, þar sem hann vill klára tímabilið í Kína fyrst. Benítez var nálægt því að taka við stjórastöðunni hjá West Ham árið 2015, en tók að lokum við Real Madríd. 

Fjölskylda Benítez býr enn á Englandi og sagði hann í viðtali á dögunum að hann hefði ekki sagt sitt síðasta í ensku úrvalsdeildinni. 

mbl.is