Liverpool leiðir kapphlaupið

Jadon Sancho er á meðal eftirsóttustu leikmanna Evrópu um þessar …
Jadon Sancho er á meðal eftirsóttustu leikmanna Evrópu um þessar mundir. AFP

Það stefnir í harða baráttu um enska knattspyrnumanninn Jadon Sancho sem er samningsbundinn Borussia Dortmund í þýsku 1. deildinni. Sancho, sem er aðeins 19 ára gamall,  er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu en hann gæti yfirgefið þýska liðið þegar janúarglugginn verður opnaður.

Sancho hefur skorað fimm mörk og lagt upp önnur sex í ellefu leikjum í þýsku 1. deildinni á leiktíðinni. Hann hefur verið mikið í umræðunni í Þýskalandi að undanförnu en hann byrjaði á varamannabekknum í 3:1-tapi gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku. Sancho kom inn á í leiknum og skoraði eina mark Dortmumnd á 77. mínútu.

Dortmund hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel í undanförnum leikjum og hefur Sancho verið gerður að hálfgerðum blóraböggli í Þýskalandi. Hann er ósáttur með það að forráðamenn félagsins skuli ekki hafa staðið betur við bakið á honum og er nú sagður vilja komast burt frá félaginu eftir að hafa skrifað undir samning við Dortmund í lok ágúst 2017.

Jan Åge Fjörtoft, fyrrverandi fyrirliði norska landsliðsins, starfar í dag sem sparkspekingur og hann greindi frá því í dag að topplið ensku úrvalsdeildarinnar, Liverpool, leiddi kapphlaupið um Sancho. Þá hefur leikmaðurinn einnig verið orðaður við uppeldisfélag sitt Manchester City en Sancho er sagður spenntur fyrir því að vinna með Jürgen Klopp.

mbl.is