Manchester United hagnast mest á „VAR“

Harry Maguire ræðir við dómarann Paul Tierney í leik Manchester …
Harry Maguire ræðir við dómarann Paul Tierney í leik Manchester United gegn Chelsea. AFP

Manchester United er eitt þeirra liða sem hagnast hafa mest á inngripum VAR-myndbandsdómgæslunnar en íþróttamiðillinn ESPN tók saman hvaða lið ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu hafa grætt mest og hvaða lið tapað mest á kerfinu umdeilda.

Manchester United er eitt þriggja liða sem hafa í þrígang lent í að ákvörðun er breytt, liðinu í hag. Fyrstu afskipti VAR í leik United voru að vísu Manchester-liðinu í óhag þegar Arsenal kom í heimsókn á Old Trafford í haust. Pierre-Emerick Aubameyang jafnaði þá metin fyrir Arsenal og var markið í fyrstu dæmt af vegna rangstöðu en síðar breytt í gilt mark eftir myndbandsathugun.

Eftir það hefur kerfið vinsæla haft afskipti af leikjum United í þrígang, alltaf rauðu djöflunum í hag. Liðið fékk tvær vítaspyrnur í sama leiknum gegn Norwich, þökk sé myndbandsdómurum, sem fóru þó báðar forgörðum, og svo aftur víti í grannaslagnum gegn Manchester City um síðustu helgi sem Marcus Rashford skoraði úr í fræknum sigri United.

Brighton og Tottenham eru hin tvö liðin sem hafa notið góðs af afskiptum VAR þrisvar sinnum. Tottenham slapp eftirminnilega með skrekkinn gegn Englandsmeisturum Manchester City þegar Gabriel Jesus skoraði dramatískt sigurmark í leik liðanna sem síðar var dæmt ógilt en sóknarmaðurinn handlék knöttinn í aðdraganda marksins.

Í leikjum toppliðs Liverpool hefur VAR þrisvar sinnum haft afskipti af ákvörðun dómara og tvisvar var það lærisveinum Jürgens Klopps í hag. Mark var dæmt af Chelsea í 2:1-sigri Liverpool í einvígi liðanna á Stamford Bridge og það sama gerðist í leik Liverpool og Crystal Palace, þar sem mark var dæmt af heimamönnum á Selhurst Park en Liverpool vann einnig þann leik 2:1.

Eina skiptið sem ákvörðun VAR snerist gegn Liverpool var í eina leiknum sem liðið hefur tapað stigum á tímabilinu, í 1:1-jafnteflinu gegn fjendunum í Manchester United. Jöfnunarmark Sadios Manés var þá dæmt af þar sem Senegalinn handlék knöttinn áður en hann skoraði.

Chelsea oftast orðið fyrir barðinu á VAR

Englandsmeistarar Manchester City hafa verið heldur óheppnari. Þrjár ákvarðanir hafa verið þeim í óhag en einu sinni kom myndbandsdómgæslan þeim til bjargar. Sergio Aguero fékk þá að endurtaka vítaspyrnu sem hann klúðraði þar sem leikmaður West Ham var of fljótur á sér og hljóp inn í teig áður en Argentínumaðurinn spyrnti boltanum.

Það eru svo lið Chelsea og Norwich sem reka lestina en bæði lið hafa verið á öfugum enda VAR-dómgæslunnar í þrjú skipti. Bæði lið hafa einu sinni hagnast á ákvörðun kerfisins en mörk voru tekin af Chelsea í leikjum gegn Norwich og Liverpool og þá fékk Callum Hudson-Odoi ekki vítaspyrnuna sem dæmd var honum í vil í leik gegn Burnley.

mbl.is