United sektað fyrir að mótmæla marki sem reyndist ólöglegt

Craig Pawson sýnir David de Gea gula spjaldið vegna mótmælanna.
Craig Pawson sýnir David de Gea gula spjaldið vegna mótmælanna. AFP

Enska knattspyrnusambandið hefur sektað Manchester United um 20 þúsund pund, rúmlega 3,2 milljónir króna, fyrir framkomu leikmanna liðsins við dómarann í leiknum við Liverpool í úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Liverpool skoraði þá mark, sem í fyrstu var úrskurðað gilt af dómara leiksins, en var síðan dæmt af eftir skoðun myndbanda þar sem Virgil van Dijk var talinn hafa brotið á David de Gea markverði United í aðdraganda marksins.

Leikmenn Manchester United mótmæltu markinu ákaflega og de Gea fékk gula spjaldið hjá Craig Pawson dómara. Þessi mótmæli reyndust dýr, enda þótt niðurstaðan hafi verið sú að leikmennirnir hefðu haft sitthvað til síns máls.

mbl.is