Hetjan frá München fallin frá

Harry Gregg.
Harry Gregg.

Harry Gregg, fyrrverandi markvörður Manchester United og norðurírska landsliðsins í knattspyrnu, sem vann mikla hetjudáð í flugslysinu í München árið 1958 þegar átta leikmenn fórust ásamt fimmtán öðrum, er látinn, 87 ára að aldri.

Gregg kom til liðs við Manchester United seint á árinu 1957 frá Doncaster Rovers og varð þá dýrasti markvörður heims þegar United greiddi fyrir hann 23 þúsund pund.

Hann hafði aðeins verið leikmaður liðsins í þrjá mánuði þegar það lenti í flugslysinu í München 6. febrúar 1958 en United var þá á heimleið frá Belgrad þar sem það hafði leikið gegn Partizan Belgrad í Evrópukeppni.

Gregg vann mikið þrekvirki á flugvellinum í München þar sem hann dró fjölda fólks út úr brennandi flakinu eða sinnti því á annan hátt, þar á meðal liðsfélaga sína Bobby Charlton, Jackie Blanchflower og Dennis Violet, knattspyrnustjórann Matt Busby ásamt ófrískri júgóslavneskri konu, Veru Lukic, og tveggja ára dóttur hennar, Vesnu. Fyrir vikið var hann oft kallaður „Hetjan frá München“.

Gregg fæddist í bænum Magherafelt á Norður-Írlandi árið 1932. Hann lék með Manchester United í níu ár og varði mark liðsins í 210 deildarleikjum ásamt því að leika 25 landsleiki fyrir Norður-Írland. Hann var valinn besti markvörður heimsmeistaramótsins í Svíþjóð árið 1958 þar sem hann varði mark norðurírska liðsins sem komst í átta liða úrslit.

Hann lauk ferlinum hjá Stoke City, lagði hanskana á hilluna 1967 og gerðist síðan knattspyrnustjóri þar sem hann stýrði liðum Shrewsbury, Swansea, Crewe og Carlisle á árunum 1968 til 1987. Inn á milli var hann markvarðaþjálfari Manchester United í nokkur ár og aðstoðarstjóri hjá Swindon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert