Gæti misst af EM í sumar

Marcus Rashford er að glíma við bakmeiðsli.
Marcus Rashford er að glíma við bakmeiðsli. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir óvíst hvort framherjinn Marcus Rashford leiki aftur með liðinu á tímabilinu. Þá gæti hann misst af Evrópumótinu í sumar. 

Rashford meiddist illa í baki um miðjan síðasta mánuð og verður frá í lengri tíma. Fyrst var búist við að Rashford yrði frá keppni í um sex vikur, en nú er ljóst að hann verður lengur frá. 

„Ég vona að hann spili aftur á þessari leiktíð, en það er óljóst. Vonandi náum við að komast ágætlega í gegnum þennan kafla sem hann er frá. Hann verður frá í einhverja mánuði og ef hann er ekki í standi, fer hann ekki á EM,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi. 

Þá hrósaði Solskjær landa sínum Erling Braut Håland sem hefur farið á kostum fyrir Borussia Dortmund, en hann var orðaður við Manchester United í síðasta mánuði. „Ég er himinlifandi fyrir hans hönd. Hann er frábær strákur og ég vil það besta fyrir hann. Það er glæsilegt fyrir Norðmenn að vera með framherja sem skorar,“ sagði Solskjær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert