Stjórarnir spurðir um kórónuveiruna og handabönd

Jürgen Klopp ræddi um kórónuveiruna á fréttamannafundi sínum í dag.
Jürgen Klopp ræddi um kórónuveiruna á fréttamannafundi sínum í dag. AFP

Knattspyrnustjórar ensku úrvalsdeildarliðanna sem hafa setið fyrir svörum á fréttamannafundum í dag hafa allir fengið spurningar um kórónuveiruna og möguleg áhrif hennar á þeirra lið.

Fyrr í dag tilkynnti Newcastle að þar á bæ væri búið að banna leikmönnum, þjálfurum og öðrum starfsmönnum að heilsast með handbandi á æfingasvæðinu, sem væri venja þegar þeir mættu til starfa á hverjum morgni. Það væri gert samkvæmt ráðleggingum læknis.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, sagði að um heimsástand væri að ræða og það yrði að taka alvarlega. „En það er ekki ástæða til að óttast of mikið. Við heilsumst áfram,“ sagði Guardiola.

Hjá West Ham eru leikmenn líka beðnir um að halda að sér höndum. „Eftir að hafa ráðgast við læknateymið höfum við látið alla leikmennina fá handáburð til að nota. Við samþykktum líka að sleppa handaböndum í bili, sláum bara saman hnefum í staðinn. En auðvitað fá þeir að fagna á morgun ef við skorum,“ sagði David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að sitt læknalið hefði ekki komið með ráðleggingar um að hætta að heilsa með handabandi.

„Við tökum þetta alvarlega, sleppum að gera sumt sem við gerum vanalega, en þetta er nákvæmlega eins og þegar flensufaraldur er í gangi. Við bregðumst eins við. Við höfum ekki bannað handabönd en það eru heldur engir skyldugir til að takast í hendur. Við erum með sótthreinsuð svæði þar sem við getum alltaf þvegið okkur, en dugar það? Við vitum það ekki. Enginn hefur enn sagt okkur að við getum ekki spilað fótbolta og á meðan svo er þá spilum við fótbolta. Það er alltaf nauðsynlegt að taka svona lagað alvarlega en við megum ekki tapa okkur yfir því. Það er margt alvarlegra í gangi sums staðar í heiminum, og hvað þetta varðar er aðalmálið að finna lausn á vandamálinu,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert