Handabönd á æfingasvæðinu bönnuð

Steve Bruce, knattspyrnustjóri Newcastle, tekur ekki í hendur leikmanna sinna …
Steve Bruce, knattspyrnustjóri Newcastle, tekur ekki í hendur leikmanna sinna við komuna á æfingasvæðið. AFP

Enska knattspyrnuliðið Newcastle hefur ákveðið að banna leikmönnum og öðrum sem starfa hjá félaginu að takast í hendur á æfingasvæðinu. Handabandabannið á að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar.

Hingað til hafa leikmenn, þjálfarar og aðrir starfsmenn heilsast með handabandi við komuna á æfingasvæðið að morgni dags.

„Við höfum ákveðið að hætta því eftir ráðleggingar frá lækni,“ er haft eftir Steve Bruce, knattspyrnustjóra Newcastle, á vef BBC.

„Við erum eins og allir aðrir, límdir við sjónvarpsskjáinn og sjáum hvernig málin þróast. Vonandi verður þetta ekki mikið verra hérna,“ bætti Bruce við en alls hafa 19 smit verið staðfest í Bretlandi.

mbl.is