Leikmaður Palace lánar heilbrigðisstarfsfólki 50 íbúðir

Wilfried Zaha vill láta gott af sér leiða í baráttunni …
Wilfried Zaha vill láta gott af sér leiða í baráttunni við kórónuveiruna. AFP

Wilfried Zaha, leikmaður Crystal Palace og landsliðs Fílabeinsstrandarinnar í knattspyrnu, hefur boðið starfsfólki bresku heilbrigðisþjónustunnar ókeypis afnot af 50 íbúðum sem hann á í London. The Times skýrir frá þessu.

Zaha, sem þénar um 130 þúsund pund á viku, rúmlega 21 milljón íslenskra króna, leigir vanalega íbúðirnar til fólks sem kemur til London í viðskiptaerindum en þær eru aðallega í hverfunum Notting Hill, Shoreditch og Aldgate.

Samkvæmt The Times vill Zaha með þessu leggja baráttunni gegn kórónuveirunni lið en skortur er á húsnæði fyrir starfsfólk sjúkrahúsanna í London þar sem það getur dvalið og verið í sóttkví frá aðstandendum sínum.

Zaha hefur verið búsettur í London frá fjögurra ára aldri og ólst upp í akademíu Crystal Palace í suðurhluta höfuðborgarinnar þar sem hann hefur verið nær allan sinn feril, ef undanskilin er stutt dvöl hjá Manchester United og Cardiff.

mbl.is