Nýtir Liverpool sér fjárhagsvandræði Barcelona?

Ousmane Dembélé hefur þurft að sitja í stúkunni á mörgum …
Ousmane Dembélé hefur þurft að sitja í stúkunni á mörgum leikjum í vetur vegna meiðsla. AFP

Spænski íþróttafjölmiðillinn Sport fullyrðir í dag að Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool vilji fá franska sóknarmanninn Ousmane Dembélé í sinn hóp í sumar og Liverpool gæti nýtt sér erfiða fjárhagsstöðu Barcelona til að kaupa hann fyrir 90 milljónir evra.

Íþróttadagblaðið AS hafði áður fjallað um möguleikana á því að Dembélé færi til Liverpool en Klopp sé að leita að mönnum í staðinn fyrir Adam Lallana og Xherdan Shaqiri sem séu á leið frá félaginu í sumar.

Barcelona skýrði á dögunum frá fjárhagserfiðleikum vegna kórónufaraldursins sem hefur skrúfað fyrir tekjur til knattspyrnufélaganna og hefur lækkað laun íþróttafólks síns í öllum greinum um 70 prósent á meðan keppni liggur niðri.

Barcelona keypti Dembélé af Borussia Dortmund árið 2017 en hann hefur átt í miklum erfiðleikum vegna meiðsla og er frá keppni sem stendur eftir uppskurð fyrr á þessu ári.

Dembélé er 22 ára gamall og hefur spilað 51 deildaleik fyrir Barcelona þar sem hann hefur skorað 12 mörk. Hann á að baki 21 landsleik fyrir Frakkland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert