Vilja afhenda Liverpool bikarinn

Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar …
Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu. AFP

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu vonast til þess að hefja leik að nýju í júní en ekkert hefur verið spilað í deildinni síðan 9. mars síðastliðinn. Liverpool hefur verið í frábæru formi á tímabilinu en liðið er með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu.

Uppi hafa verið orðrómar um að deildin fari aftur af stað 12. júní en Sky Sports greindi frá því að sjónvarpsstöðvar sem eru með sýningarrétt að deildinni hafi fengið þau skilaboð að þau eigi að byrja að undirbúa endurkomu deildarinnar í kringum þessa dagsetningu. Fari svo að það verði byrja að spila um miðjan júní er vonast til þess að deildin klárist í kringum lok júlí.

„Vonandi getum við haft bikarafhendingu fyrir Liverpool,“ sagði Richard Masters, framkvæmdastjóri deildarinnar, í samtali við Sportsmail. „Við stefnum á það eins og staðan er í dag því leikmennirnir, stjórinn og alltaf starfsfólkið á það skilið. Það þyrfti hins vegar að vera í samræmi við sóttvarnalög og við þurfum því að bíða og sjá hvað verður,“ bætti Masters við.

mbl.is