Fyrsti sigur Leeds kom í sjö marka leik

Hélder Costa og Patrick Bamford fagna fjórða marki Leeds.
Hélder Costa og Patrick Bamford fagna fjórða marki Leeds. AFP

Leeds vann sinn fyrsta sigur í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í sextán ár er Fulham kom í  heimsókn á Elland Road í nýliðaslag. Urðu lokatölur 4:3, Leeds í vil. 

Leeds byrjaði af miklum krafti og Hélder Costa kom liðinu yfir á fimmtu mínútu með glæsilegri afgreiðslu eftir hornspyrnu. Fulham jafnaði á 34. mínútu er Aleksandar Mitrovic skoraði úr vítaspyrnu eftir að Joe Bryan var tekinn niður innan teigs. 

Staðan var jöfn í aðeins sjö mínútur því Leeds fékk víti á 41. mínútu. Pólverjinn Mateusz Klich fór á punktinn og skoraði af öryggi og var staðan í hálfleik 2:1, Leeds í vil. 

Leeds byrjaði af gríðarlegum krafti í seinni hálfleik og Patrick Bamford kom Leeds í 3:1 á 50. mínútu og sjö mínútum síðar lagði Bamford upp mark á Hélder Costa sem skoraði sitt annað mark með fallegu skoti. 

Leikmenn Leeds slökuðu verulega á og Fulham gekk á lagið. Bobby Reid minnkaði muninn í 4:2 á 62. mínútu, nýkominn inn á sem varamaður, og Mitrovic skoraði sitt annað mark á 67. mínútu og minnkaði muninn í 4:3. 

Fulham reyndi hvað það gat til að jafna metin, en það gekk ekki upp og Leeds fagnaði sigri. Tapaði Leeds fyrir Liverpool í fyrstu umferð, 3:4 og er því með markatöluna 7:7 og þrjú stig. Fulham er án stiga eftir tap gegn Arsenal í fyrstu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert