Salah mun pirra nýjasta leikmann Liverpool

Mo Salah
Mo Salah AFP

Emile Heskey fyrrverandi leikmaður Liverpool og enska landsliðsins spáir því að nýjasti leikmaður liðsins, Portúgalinn Diogo Jota, komi til með að verða ósáttur við Mo Salah þar sem Salah hugsi stundum of mikið um sjálfan sig á vellinum. 

Í 3:1-sigri Liverpool á Arsenal í gærkvöld var Jota kominn í gott færi þegar Salah virtist taka boltann af honum og sóknin rann að lokum út í sandinn. Heskey segir að Jota muni ekki alltaf vera sáttur við Salah, en hann þurfi að aðlagast því að spila með Egyptanum. 

„Stundum verður hann ósáttur og spyr Salah af hverju hann sendi ekki boltann. Svona eru markaskorarar sem skora 20-25 mörk á tímabilinu. Þeir reyna að nýta hvert einasta tækifæri til að skora mörk. Salah verður að halda áfram að spila eins og hann hefur gert og stundum vera eigingjarn. 

Einhvern tímann verður Jota ekki sáttur og mun ræða við hann í hálfleik eða eftir leik. Menn setjast niður, ræða þessa hluti og sættast. Mané var pirraður út í Salah á síðustu leiktíð en svo skildu þeir sáttir,“ sagði Heskey við Sky. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert