Solskjær horfir til Portúgals

Alex Telles í leik með Porto í ágúst.
Alex Telles í leik með Porto í ágúst. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United á í viðræðum við portúgalska félagið Porto um kaup á vinstri bakverðinum Alex Telles en það er BBC sem greinir frá þessu.

Telles er 27 ára gamall Brasilíumaður en samningur hans við portúgalska félagið rennur út sumarið 2021.

Hann getur því farið frítt frá félaginu næsta sumar en United er sagt tilbúið að borga 12 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Porto vill hins vegar fá 18 milljónir punda fyrir leikmanninn sem gekk til liðs við Porto frá Galatasaray sumarið 2016.

Vinstri bakvarðastaðan hefur verið ákveðið vandamál hjá United en Luke Shaw hefur verið mikið meiddur og hinn réttfærri Brandon Williams leysti stöðuna mikið á síðustu leiktíð.

BBC greinir frá því að forráðamenn United ætli sér ekki að rífa upp veskið fyrir leikmann sem verður samningslaus næsta sumar og því gæti félagið samið við hann í janúar, frekar en að borga 18 milljónir punda fyrir hann núna.

mbl.is