Rooney stýrir Hrútunum á næstunni

Wayne Rooney.
Wayne Rooney. AFP

Derby County hefur rekið Hollendinginn Phillip Cocu úr starfi sem knattspyrnustjóri félagsins en liðið leikur í næstefstu deild Englands.

Wayne Rooney, fyrirliði liðsins og fyrrverandi leikmaður m.a. Manchester United og Everton, mun stýra næstu æfingum Hrútanna og liðsvali að því er fram kemur í frétt Sky Sports en þó kemur þar sérstaklega fram að Rooney hafi ekki verið skipaður bráðabirgðastjóri.

Rooney mun njóta stuðnings Liams Roseniors, Shays Givens og Justins Walkers.

Cocu tók við af Frank Lampard sumarið 2019 og undir hans stjórn á síðasta tímabili varð liðið í 10. sæti. Nú er liðið í botnsæti deildarinnar með aðeins einn sigur eftir 11 umferðir.

Ekki er búist við því að bráðabirgðastjóri verði skipaður fyrr en kaup Sheikhs Khaleds bin Zayed Al Nehayans, meðlims konungsfjölskyldunnar í Abu Dhabi, á félaginu ganga eftir. Áætlað er að kaupin gangi í gegn fyrir lok þessa mánaðar.

Phillip Cocu.
Phillip Cocu. Ljósmynd/Fenerbache
mbl.is