Þurfum að gera miklu betur

Thiago Alcantara átti góðan leik á miðsvæðinu hjá Liverpool í …
Thiago Alcantara átti góðan leik á miðsvæðinu hjá Liverpool í gær. AFP

Thiago Alcantara, miðjumaður Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu, var ómyrkur í máli eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield í Liverpool í gær.

Leikmenn Liverpool voru meira með boltann í leiknum en þrátt fyrir það fékk United hættulegustu færi leiksins og hefði Paul Pogba getað tryggt United sigur undir restina úr besta færi leiksins.

Alisson, markvörður Liverpool, var hins vegar vandanum vaxinn í markinu og varði frábærlega frá franska miðjumanninum af stuttu færi í teignum.

„Við viljum vinna alla þá leiki sem við spilum og við erum þess vegna óánægðir eftir þessa niðurstöðu,“ sagði Thiago eftir leikinn í gær í samtali við heimasíðu Liverpool.

„Við vorum frábærir í fyrri hálfleik en þeir komust betur inn í leikinn í síðari hálfleik. Það var margt jákvætt í okkar leik en við þurfum að gera miklu betur ef við ætlum okkur að endurheimta toppsætið á nýjan leik.

Það sem okkur skortir þessa dagana er að skora mörk og það vantar aðeins upp á sjálfstraustið fremst á vellinum. Við sköpuðum okkur ágætis marktækifæri.

Svona er fótboltinn stundum og þú ferð hátt upp á köflum og svo aftur niður og við erum að ganga í gegnum ákveðna lægð þessa dagana,“ bætti Thiago við.

mbl.is