Sakar sína menn um uppgjöf

Það gengur lítið upp hjá Ralph Hasenhüttl og lærisveinum hans …
Það gengur lítið upp hjá Ralph Hasenhüttl og lærisveinum hans í Southampton þessa dagana. AFP

Ralph Hasenhüttl, knattspyrnustjóri Southampton í ensku úrvalsdeildinni, hefur sakað lærisveina sína um uppgjöf eftir tap gegn Leeds í gær.

Leeds vann nokkuð þægilegan 3:0-sigur gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni á Elland Road í Leeds í gær en öll mörkin komu í síðari hálfleik.

Það hefur ekkert gengið upp hjá Southampton síðan liðið vann 1:0-sigur gegn Liverpool 4. janúar í Southampton en liðið hefur aðeins fengið eitt stig af 24 stigum mögulegum síðan.

„Við gáfumst upp í síðari hálfleik og ég var alls ekki hrifinn,“ sagði Hasenhüttl í samtali við fjölmiðlamenn eftir leik.

„Gengið hefur ekki verið gott og sjálfstraustið er lítið. Það tekur á að tapa knattspyrnuleikjum.

Leeds gerðu vel, nýttu sér veikleika okkar, og unnu sanngjarnan sigur,“ bætti Hasenhüttl við.

mbl.is