Neitar að skrifa undir nýjan samning

Eric Bailly hefur ekki átt fast sæti í liði United …
Eric Bailly hefur ekki átt fast sæti í liði United á tímabilinu. AFP

Eric Bailly, miðvörður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, ætlar ekki að skrifa undir nýjan samning við félagið.

Það er ESPN sem greinir frá þessu en núverandi samningur Baillys rennur út sumarið 2022.

Varnarmaðurinn, sem er 27 ára gamall, hefur ekki átt fast sæti í liðinu síðan Ole Gunnar Solskjær tók við stjórnartaumunum hjá United í desember 2019.

Hann hefur aðeins byrjað sjö leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og er sagður tilbúinn að róa á önnur mið til þess að fá meiri spilatíma.

Hann hefur verið orðaður við lið á Spáni og Ítalíu en fari svo að hann neiti að skrifa undir nýjan samning gæti United neyðst til þess að selja leikmanninn á útsöluverði í sumar.

Bailly gekk til liðs við United frá Villarreal á Spáni sumarið 2016 og er metinn á 20 milljónir punda í dag.

mbl.is