Ætla ekki að selja Arsenal

Stuðningsmenn Arsenal hafa mótmælt eignarhaldi Kroenke-fjölskyldunnar harðlega.
Stuðningsmenn Arsenal hafa mótmælt eignarhaldi Kroenke-fjölskyldunnar harðlega. AFP

Eigendur enska knattspyrnufélagsins Arsenal ætla ekki að selja úrvalsdeildarliðið en sænski millj­arðamær­ing­ur­inn Daniel Ek, stofn­andi og fram­kvæmda­stjóri tón­list­ar­streym­isveit­unn­ar Spotify, hyggst leggja fram yf­ir­töku­til­boð í Lundúnaliðið.

Stuðningsmenn Arsenal hafa kallað eftir því að Kroenke-fjölskyldan selji meirihluta sinn í félaginu eftir misheppnaða tilraun til að ganga í ofurdeildina svokölluðu en þúsundir mótmæltu bandarísku auðkýfingunum fyrir utan heimavöll félagsins á dögunum.

Sky Sports greindi frá því á dögunum að Ek, með hjálp frá þremur Arsenal-goðsögnum, vilji kaupa félagið en Svíinn er mikill stuðningsmaður Arsenal. Fyrr­ver­andi leik­menn­irn­ir þrír sem um ræðir eru þeir Thierry Henry, Denn­is Berg­kamp og Pat­rick Vieira.

Stan og Josh Kroenke hafa hins vegar gefið út yfirlýsingu þar sem þeir segjast ekki hafa áhuga á að selja félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert