Fjórir leikir á átta dögum

Ole Gunnar Solskjær þarf að nýta leikmannahópinn afar vel á …
Ole Gunnar Solskjær þarf að nýta leikmannahópinn afar vel á næstunni. AFP

Manchester United á fyrir höndum fjóra leiki á átta dögum áður en liðið leikur til úrslita gegn Villarreal í Evrópudeild karla í knattspyrnu. 

Knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær segir þessa stöðu óþekkta í íþróttinni og verkefnið sé ekki framkvæmanlegt með góðu móti. Slík leikjaniðurröðun hljóti að vera ákveðin af mönnum sem ekki hafi keppt í íþróttinni í háum gæðaflokki. 

United lék í gær í undanúrslitum Evrópudeildarinnar og er gert að leika í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn, á þriðjudaginn og á fimmtudaginn. Eftir það leikur liðið 18. maí og loks úrslitaleikinn 23. maí. 

United er í 2. sæti deildarinnar með 67 stig eftir 33 leiki og er fjórum stigum á undan Leicester sem er í 3. sæti og sex stigum á undan Chelsea. 

mbl.is