„Versta tímabil ferilsins“

Sadio Mané skorar gegn Southampton um helgina.
Sadio Mané skorar gegn Southampton um helgina. AFP

Sadio Mané segist ekki neinar skýringar hafa á því af hverju honum hefur gengið jafn illa og raunin hefur verið með enska knattspyrnuliðinu Liverpool á yfirstandandi tímabili.

Hann hefur skorað níu mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, sem telst nú nokkuð gott, en á síðasta tímabili skoraði hann hins vegar 18 mörk í deildinni og á tímabilinu þar á undan var hann markahæstur ásamt Mohamed Salah og Pierre-Emerick Aubameyang með 22 deildarmörk.

„Þetta er versta tímabil ferils míns. Ég verð að viðurkenna það. Ef þú spyrð mig hvað er að plaga mig á ég í erfiðleikum með að svara því. Ég veit það hreinlega ekki.

Ég hef alltaf reynt að vera jákvæður, hvort sem hlutirnir eru að ganga vel eða illa. Ég gagnrýni sjálfan mig stöðugt,“ sagði Mané í samtali við Canal+ fyrir helgi, en honum tókst að skora um liðna helgi í 2:0 sigri gegn Southampton í deildinni.

Á yfirstandandi tímabili hefur hann klúðrað ógrynni dauðafæra í deildinni og endaði það með því að Mané sá sig knúinn til þess að láta athuga hvort hann væri ekki alveg í lagi.

„Ég fór meira að segja í athugun þar sem litið var á líkama minn. Er ég að borða rétta matinn eða hefur allt breyst? Niðurstöður athugunarinnar voru á þá leið að það er í himnalagi með mig.

Ég þarf að gangast við því að það koma hæðir og lægðir í lífinu. Ég mun halda áfram að leggja hart að mér og kannski líður þetta hjá með tímanum,“ sagði Mané einnig í samtali við Canal+.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert