Tottenham vill ráða Ítalann

Gennaro Gattuso
Gennaro Gattuso AFP

Enska knattspyrnufélagið Tottenham mun ekki ráða Paulo Fonseca til starfa þrátt fyrir að viðræður hafi átt sér stað síðustu daga. Þess í stað ætlar félagið að sækjast eftir Gennaro Gattuso, sem yfirgaf Fiorentina fyrr í dag.

Fabio Paratici, yfirmaður knattspyrnumála hjá Tottenham, ku vera mikill aðdáandi Gattusos sem var magnaður leikmaður á sínum tíma. Eftir að Gattuso lagði skóna á hilluna hefur hann m.a. þjálfað AC Milan og Napólí.

Tottenham hefur verið án stjóra síðan félagið rak José Mourinho í apríl. Síðan þá hefur félagið rætt við Mauricio Pochettino, Antonio Conte og Paolo Fonseca en án árangurs.

mbl.is