Ronaldo var rosalega stressaður

Cristiano Ronaldo fagnar í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar í gær. AFP

„Ég átti ekki von á að skora tvö mörk, kannski eitt en ekki tvö,“ sagði Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, í samtali við BBC eftir 4:1-sigur liðsins á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

„Það mikilvægasta var að vinna. Auðvitað er ég glaður þegar ég skora, en það mikilvægasta var að vinna og liðið spilaði vel,“ bætti Ronaldo við en hann var að leika sinn fyrsta leik með United frá árinu 2009.

„Þetta er ótrúlegt, ég var rosalega stressaður þegar leikurinn byrjaði, ég lofa. Ég átti ekki von á að stuðningsmennirnir myndu syngja nafnið mitt allan leikinn. Ég var mjög stressaður, en ég reyndi að fela það.

Allir vita að fótboltinn í Englandi er öðruvísi en annars staðar í heiminum. Ég kom hingað þegar ég var 18 ára og fékk magnaðar viðtökur, þess vegna kom ég aftur,“ sagði Ronaldo.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert