Tíu leikmenn nýliðanna fögnuðu útisigri

Leikmenn Brentford fagna í dag.
Leikmenn Brentford fagna í dag. Ljósmynd/Brentford FC

Brentford vann í dag sinn annan sigur á leiktíðinni í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta er liðið heimsótti Wolves og vann 2:0.

Ivan Toney var afar áberandi fyrir Brentford í fyrri hálfleik en hann skoraði fyrra markið á 28. mínútu úr víti og lagði upp seinna markið á Bryan Mbeumo sex mínútum síðar. Toney kom boltanum tvívegis til viðbótar í netið, en mörkin stóðu ekki.

Shandon Baptiste fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt hjá Brentford á 64. mínútu. Þrátt fyrir liðsmuninn tókst Wolves illa að skapa sér færi og Brentford fagnaði sætum sigri.

Nýliðarnir eru í níunda sæti deildarinnar með átta stig. Wolves er í fjórtánda sæti með þrjú.

mbl.is