Enn bíða Leeds, Burnley og Newcastle eftir fyrstu sigrunum

Jamie Vardy kom mikið við sögu í leik Leicester City …
Jamie Vardy kom mikið við sögu í leik Leicester City og Burnley. AFP

Fjórum leikjum var að ljúka rétt í þessu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og þar vantaði ekkert upp á dramatíkina.

Leeds United fékk West Ham United í heimsókn. Brasilíumaðurinn Raphinha kom Leeds yfir á 19. mínútu og leiddi liðið í hálfleik.

Á 67. mínútu varð Junior Firpo fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og virtist stefna í jafntefli þegar Michail Antonio skoraði sigurmark West Ham á 90. mínútu.

Lokatölur því 2:1 og Leeds er enn án sigurs.

Sömu sögu er að segja af Burnley sem náðu tvisvar forystunni á útivelli gegn Leicester City í stórskemmtilegum leik.

Jami Vardy byrjaði á því að skora sjálfsmark en jafnaði svo metin með því að koma boltanum í net Burnley-manna.

Maxwel Cornet kom Burnley yfir að nýju skömmu fyrir leikhlé áður en hann fór meiddur af velli stuttu seinna og kom Jóhann Berg Guðmundsson í hans stað.

Vardy var enn á ný á ferðinni á 85. mínútu þegar hann jafnaði metin og svo virtist sem Chris Wood væri að tryggja Burnley fyrsta sigur tímabilsins en mark hans á fjórðu mínútu uppbótartíma var dæmt af vegna rangstöðu eftir að VAR skoðaðið atvikið.

Newcastle United komst þá yfir með marki Sean Longstaff um miðjan fyrri hálfleik áður en Ismaila Sarr jafnaði metin fyrir heimamenn í Watford á 72. mínútu. Newcastle er þar með einnig enn án sigurs.

Everton hélt svo áfram á beinu brautinni og vann þægilegan 2:0 sigur gegn botnliði Norwich City.

Andros Townsend kom liðinu yfir í fyrri hálfleik með marki úr vítaspyrnu og Abdoulaye Doucouré innsiglaði sigurinn á 77. mínútu.

mbl.is