Rekinn frá nýliðunum

Xisco Munoz hefur verið látinn taka pokann sinn.
Xisco Munoz hefur verið látinn taka pokann sinn. AFP

Xisco Munoz hefur verið leystur frá störfum sínum sem knattspyrnustjóri enska félagsins Watford þegar aðeins sjö umferðum er lokið í ensku úrvalsdeildinni.

Nýliðar Watford töpuðu í gær 0:1 fyrir Leeds United og þótti stjórn félagsins þegar nóg um þrátt fyrir að Watford sé með 7 stig í 14. sæti úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

Xisco tók við stjórnartaumunum hjá Watford í desember á síðasta ári og stýrði liðinu í 2. sæti ensku B-deildarinnar, sem tryggði liðinu sæti í ensku úrvalsdeildinni á ný eftir aðeins árs fjarveru.

„Stjórninni finnst sem frammistöður liðsins að undanförnu gefi skýrar vísbendingar um að þær séu á niðurleið þegar samheldnin liðsins ætti að vera á sýnilegri uppleið.

Félagið mun ávallt vera Xisco þakklátt fyrir hans þátt í að liðið komst upp á síðasta tímabili og við óskum honum góðs gengis í framtíðinni. Félagið mun ekki tjá sig frekar um málið þar til tilkynning um nýjan þjálfara liggur fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert