Allt að gerast í Newcastle

Anthony Martial og Jesse Lingard eru báðir orðaðir við Newcastle …
Anthony Martial og Jesse Lingard eru báðir orðaðir við Newcastle í enskum fjölmiðlum í dag. AFP

Enskir fjölmiðlar fjalla mikið um málefni enska knattspyrnufélagsins Newcastle í dag en sádiarabíski krónprinsinn Mohammed bin Salman keypti félagið í síðustu viku.

Enska félagið er því orðið ríkasta knattspyrnufélag heims en eignir Bin Salman eru metnar á 320 milljarða punda.

Til samanburðar má nefna að katarskir eigendur París SG í Frakklandi eru metnir á 220 milljarða punda og eigendur Manchester City frá Abú Dabí eru metnir á 21 milljarð punda.

Brendan Rogers, knattspyrnustjóri Leicester City, er orðaður við stjórastöðuna hjá félaginu sem og þeir Steven Gerrard, stjóri Rangers í Skotlandi, og Lucien Favre, fyrrverandi stjóri Borussia Dortmund.

Þá eru þeir Anthony Martial, Donny van de Beek, Eric Bailly og Jesse Lingard allir orðaðir við félagið en þeir eru samningsbundnir Manchester United. Aaron Ramsey, leikmaður Juventus, hefur einnig verið orðaður við Newcastle.

Steve Bruce, stýrir Newcastle í dag, en hann verður að öllum líkindum rekinn í vikunni. Newcastle er með 3 stig í nítjánda og næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar eftir sjö umferðir.

mbl.is