Ítalinn væntanlega rekinn

Claudio Ranieri hefur væntanlega stýrt sínum síðasta leik með Watford.
Claudio Ranieri hefur væntanlega stýrt sínum síðasta leik með Watford. AFP

Ítalski knattspyrnustjórinn Claudio Ranieri verður væntanlega rekinn sem knattspyrnustjóri Watford um helgina eða strax eftir helgi. Daily Mail greinir frá.

Watford fór niður í fallsæti ensku úrvalsdeildarinnar er liðið tapaði gegn Norwich í botnslag í gær, 0:3.

Illa hefur gengið hjá Watford síðan Ranieri tók við liðinu en í 14 deildarleikjum hefur liðið tapað ellefu og aðeins unnið tvo.

Ranieri hefur einnig stýrt Chelsea og Leicester á Englandi en hann gerði síðarnefnda liðið að enskum meistara árið 2016.

mbl.is