Salah skrifar undir langtímasamning

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP/Franck Fife

Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Liverpool. Með þessum nýja samningi verður Salah launahæsti leikmaður í sögu Liverpool með 350 þúsund pund á viku. 

Liverpool greindi frá þessu á Twitter rétt í þessu. 

Salah kom til Liverpool árið 2017 og hefur skorað 156 mörk í 254 leikjum fyrir enska félagið. Hann hefur unnið Meistaradeildina, ensku úrvalsdeildina, enska bikarinn- og deildabikarinn ásamt meistarabikar Evrópu og heimsbikar félagsliða. 

Vangaveltur hafa verið um framtíð Salah síðustu ár og hann hefur verið orðaður við mörg félög út um alla Evrópu. Hann hefur hinsvegar ákveðið að vera áfram í Bítlaborginni og spilar þar næstu þrjú árin. 

mbl.is