Frá Úlfunum til Everton

Conor Coady í leik með Wolves.
Conor Coady í leik með Wolves. AFP

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur fengið varnarmanninn Conor Coady að láni frá Wolves út tímabilið, en bæði lið leika í ensku úrvalsdeildinni.

West Ham hafði einnig áhuga á að fá Coady til liðs við sig, en Everton hafði betur í baráttunni um miðvörðinn.

Coady var allan tímann á bekknum er Wolves tapaði fyrir Leeds, 1:2, í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardag. Coady hefur verið lykilmaður Wolves undanfarin ár og var fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð.

Coady þekkir Liverpool-borg vel en hann ólst upp hjá Liverpool og lék einn leik með liðinu í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur verið hjá Wolves frá árinu 2015 og leikið 273 deildarleiki með liðinu. Coady á að baki tíu landsleiki fyrir England.

mbl.is