Í viðræðum um langtímasamning við United

Marcus Rashford fagnar marki með United gegn Arsenal.
Marcus Rashford fagnar marki með United gegn Arsenal. AFP/Oli Scarff

Enska knattspyrnufélagið Manchester United og sóknarmaðurinn Marcus Rashford eru í viðræðum um nýjan fimm ára samning, en samningur enska leikmannsins rennur út eftir tímabilið.

Þó er ákvæði í núgildandi samningi leikmannsins, sem gerir félaginu kleift að framlengja um eitt ár í viðbót. Því er ekki mikil hætta á því að hann fari án greiðslu til annars félags eftir þessa leiktíð.

Rashford hefur leikið vel á tímabilinu til þessa og vill United semja á ný við leikmanninn uppalda en viðræður eru enn í gangi.

Rashford er sem stendur með 180.000 pund í vikulaun á meðan Jadon Sancho, sem kom frá Dortmund fyrir síðustu leiktíð, er með 350.000 pund í vikulaun.

Express greinir frá því að París SG fylgist vel með gangi mála hjá Rashford og hafi áhuga á að fá sóknarmanninn í sínar raðir, gangi samningaviðræðurnar við United ekki upp.

mbl.is