Bakslag í bata framherjans

Dominic Calvert-Lewin í leik með Everton.
Dominic Calvert-Lewin í leik með Everton. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Dominic Calvert-Lewin mun ekki snúa aftur í leikmannahóp Everton um helgina eins og vonir stóðu til.

Calvert-Lewin meiddist á hné í upphafi yfirstandandi tímabils og hefur því ekkert leikið með Everton á því.

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton, hafði reiknað með því að geta notað hann í leik gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni þann 18. september síðastliðinn en varð að hætta við það eftir að bakslag kom í bata sóknarmannsins.

Í kjölfarið hafði verið reiknað með því að Calvert-Lewin sneri aftur fyrir leik helgarinnar gegn Southampton.

Á blaðamannafundi í dag sagði Lampard hins vegar að enn yrði bið á endurkomu Calvert-Lewin en að hann ætti að verða klár í slaginn um þarnæstu helgi þegar Everton mætir Manchester United þann 9. október.

mbl.is