Síðasta tímabil situr í leikmönnum Liverpool

Thiago er ekki að eiga sitt besta tímabil.
Thiago er ekki að eiga sitt besta tímabil. AFP/Paul Ellis

Thiago, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að vonbrigðin á síðasta keppnistímabili sitji ennþá í leikmönnum liðsins.

Liverpool fagnaði sigri í ensku bikarkeppninni, sem og enska deildabikarnum. Liðið hafnaði hins vegar í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, stigi á eftir Manchester City.

Þá tapaði Liverpool gegn Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, 0:1, í París í Frakklandi en Liverpool þótti sigurstranglegri aðilinn fyrir leikinn.

„Þetta er andlegt vandamál líka því við vorum svo nálægt því að vinna fjórfalt á síðustu leiktíð,“ sagði Thiago í samtali við Goal.

„Við vorum með aðra hönd á fjórum bikurum en svo runnu tveir þeirra út greipunum á okkur. Ég átti eitt mitt besta tímabil á síðustu leiktíð en tímabilið núna er ekki það besta. 

Það er hins vegar þetta tímabil sem telur núna og við stöndum frammi fyrir ákveðinni áskorun. Við erum með mannskap til þess að snúa þessu við og við erum staðráðnir í að gera það,“ bætti Thiago við.

mbl.is