Newcastle fór illa með Tottenham

Anthony Gordon skoraði annað mark Newcastle eftir klaufaleg mistök hjá …
Anthony Gordon skoraði annað mark Newcastle eftir klaufaleg mistök hjá Van de Ven, númer 37. AFP/ Andy Buchanan

Tottenham steinlá fyrir Newcastle í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta í dag en leikurinn endaði 4:0 á St. James’ Park.

Tottenham er í fjórða sæti í deildinni með 60 stig en Newcastle er tíu stigum á eftir þeim í fimmta sæti.

Fyrsta mark leiksins kom þegar hálftími var liðinn af leiknum en þá vann Anthony Gordon boltann af Iyenoma Udogie á miðjunni. Hann brunaði af stað í átt að marki Tottenham, sendi svo boltann á Alexander Isak sem fór illa með Micky van de Ven, hann datt í kollhnís og Isak skoraði.

Van de Ven lenti aftur í jörðinni þegar að Gordon skoraði annað mark Newcastle, aðeins tveimur mínútum siðar. Pedro Porro sendi hræðilega sendingu til baka sem Gordon komst inn í, lék á van de Ven og setti boltann svo í netið.

Staðan því 2:0 í hálfleik og ekki byrjaði seinni hálfleikur betur fyrir Tottenham en Isak skoraði þriðja mark liðsins þegar aðeins sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik eftir langa sendingu fram frá Bruno Guimaraes.

Fabian Schär skoraði svo fjórða og síðasta mark leiksins eftir hornspyrnu sem Gordon tók á 87. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert