Svindlarar afhjúpaðir í beinni útsendingu

Call of Duty:Warzone.
Call of Duty:Warzone. Skjáskot/youtube.com/Gamespot

Flestir vita að leikurinn Call of Duty:Warzone hefur notið gríðarlegra vinsælda. Margir vinsælir streymar á streymisveitunni sýna frá sínu sjónarhorni er þeir spila leikinn. Aðdáendur leiksins hafa margir hverjir kvartað yfir því að útgefandi leiksins, Activision, hafi ekki tekið jafn hart á málum svindlara í leiknum. 

Svindl í leikjum eyðileggur upplifun þeirra sem vilja spila af sanngirni. Í hópi svindlara í leiknum Warzone eru vinsælir streymar, en þeir sem gripnir hafa verið við svindl hafa verið bannaðir í leiknum. Einnig eru dæmi um að streymar verði fyrir barðinu á mismunandi svindlurum innan leiksins.

Montaði sig á velgengni sem var í raun svindl

Streymirinn Mingostyle var gripinn af öðrum streymi, Empire Tommey, er hann notaði svindlforrit til þess að svindla í leiknum. Hann opnaði forritið í sekúndu en það sást augljóslega og voru áhorfendur fljótir að átta sig á hvað væri í gangi. Svindlforritið sem Mingostyle notaði er vinsælt og þeir sem fylgjast með Warzone þekkja útlit þess vel.

Mingostyle hafi oft montað sig af því hversu vel honum gengi í leiknum. Streymirinn segist hafa verið að plata áhorfendur og hafi aðeins sýnt mynd af forritinu á leitarvef Google. Fljótt kom í ljós að um lygar var að ræða og hann hefur nú verið bannaður í Warzone fyrir fullt og allt. 

Sýndi svindlforritið óvart sjálfur

MrGolds afhjúpaði svindl sitt í leiknum á svipaðan máta og Mingostyle. Fyrir slysni opnar hann svindlforrit á meðan hann talar um það hversu góður hann er í leiknum. Þegar leikmenn eru sakaðir um svindl er algengt að þeir opni Task Manager í tölvu sinni til að sýna að enging svindlforrit séu í gangi í tölvunni. MrGolds gerir það, en hann áttar sig ekki á að svindlforritið er opið í bakgrunni. 

Hægt er að stilla streymi sitt þannig að einungis sjáist þeir gluggar í tölvunni sem streymirinn velur, svo MrGolds heldur að hann hafi bara valið að sýna einungis Task Manager og áttar sig ekki á því að svindlforritið sést í útsendingunni. Í kjölfar þessa atburðar hefur MrGolds verið bannaður á Twitch og í leiknum.

Vann 1,2 milljónir króna í verðlaun með því að svindla

AAmerica er vinsæll streymir  sem var sakaður um svindl oftar en einu sinni áður en hann var bannaður í leiknum. Aðdáendur sáu athugasemdir AAmerica á síðu þar sem hægt er að nálgast svindlforrit, og fór þá boltinn að rúlla. Streymirinn hafði áður unnið rúmlega 1,2 milljónir króna í Twitch Rivals móti í Warzone, en það er mót þar sem vinsælir streymar keppa sín á milli. Mörg myndbönd frá öðrum spilurum voru birt á veraldarvefnum þar sem hann sést augljóslega svindla. 

Par sem notaði sama svindlið

Alex Zedra, sem er vinsæll streymir á Twitch, var að fylgjast með tveimur öðrum Warzone-streymum þegar upp vöknuðu efasemdir um hæfileika þeirra sem hún fylgdist með. Reyndust efasemdir hennar á rökum reistar, en þessir tveir einstaklingar voru báðir gripnir við að nota svindl í leiknum. Alex er dugleg við að leita uppi svindlara á Twitch, og hefur nú þegar orðið til þess að nokkrir hafa verið bannaðir vegna svindls.

Annar einstaklinganna var konan IcyVixen, sem var bönnuð á Twitch eftir að hafa verið gripin við að svindla. Það þarf ekki sérfræðing til að taka eftir því að eitthvað grunsamlegt er í gangi, en IcyVixen virðist vita hvar allir mótherjar hennar eru staðsettir. Kærasti hennar, sem einnig streymir á Twitch, BeardedBanger, var einnig gripinn við að nota sama svindl. Hafa þau nú bæði verið bönnuð frá Twitch en ekki er vitað hvort þau hafi verið bönnuð í leiknum. 

Varð fyrir barðinu á óvenjulegu svindli

Atvikið sem um ræðir er frábrugðið fyrri atvikum greinarinnar. Nickmercs lenti í því að vera á sama þjóni og svindlari í leiknum, sem leiddi til þess að hann fékk óteljandi reynslustig innan leiksins sem hækkaði hann upp í hæsta stig sem hægt er í leiknum. Í leiknum þarftu að safna reynslustigum til að opna fyrir hluti innan leiksins, svo opnaðist fyrir alla hluti innan leiks hans. Segja má að hann hafi því orðið fyrir barðinu á svindlara. Fleiri streymar hafa lent í sama svindli og eru viðbrögð þeirra misjöfn, en Nickmercs virðist vera ánægður með að hafa opnað fyrir alla hluti innan leiksins. 

Illa gengur að útrýma svindlurum

Fjölmargir spilarar hafa verið bannaðir í Warzone vegna svindls. Það eru þó enn svindlarar sem ekki hafa verið bannaðir sem spila leikinn og virðist ganga illa að útrýma svindli í leiknum almennt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka