Hefur verið meðal 100 bestu leikmanna í heimi

Emil „EmilVald“ Valdimarsson leikmaður LAVA esports.
Emil „EmilVald“ Valdimarsson leikmaður LAVA esports. Grafík/LAVAesports

Emil „EmilVald“ Valdimarsson, 15 ára, spilar Rocket League fyrir lið LAVA esports. Hann er besti Rocket League-leikmaður Íslands, en hann hefur tekið þátt í fjölmörgum mótum á vegum Rocket League Ísland. EmilVald varð tvöfaldur deildar- og Íslandsmeistari með liði sínu KR White, sem nú er orðið lið LAVA esports.

Undirbýr sig fyrir þriðja tímabil RLÍS með liði sínu

EmilVald kláraði grunnskóla í vor og hefur verið að spila Rocket League í allt sumar, en hann samdi við lið LAVA esports í byrjun ágúst. Hann segir liðið nú undirbúa sig fyrir þriðja tímabil RLÍS, sem hefst í september, og æfi hann að minnsta kosti 3-4 klukkutíma á dag. Hann heldur úti Twitch-rás það sem hann streymir frá sínu sjónarhorni er hann spilar leikinn. 

Uppáhaldsleikurinn er Rocket League

EmilVald kynntist rafíþróttum er hann spilaði með enskum vinum sínum aðeins 9 ára gamall. „Uppáhaldsleikurinn minn er Rocket League og uppáhaldsbíllinn minn í leiknum er Fennec,“ segir Emil. Fyrsti leikurinn sem EmilVald spilaði var bílaleikurinn Motor Storm sem hann spilaði á PlayStation 3. 

Sá atvinnumenn spila og vildi verða jafn góður

„Þegar ég horfði á MLG-mótið í Rocket League árið 2015 og sá hvað allir leikmennirnir voru góðir fann ég að mig langaði að komast á sama hæfileikastig,“ segir EmilVald aðspurður hvað sé eftirminnilegasta minning hans úr rafíþróttum. Segir hann einnig að hann hafi ekki búist við því að rafíþróttir myndu ná eins langt og þær hafa gert á heimsvísu.

Hefur verið meðal 100 bestu í heimi

EmilVald hefur náð á lista 100 bestu leikmanna í heimi í 1v1- og 2v2-senu leiksins en hann hefur mikla hæfileika þrátt fyrir ungan aldur og verður spennandi að fylgjast með honum í úrvalsdeild RLÍS á tímabili þrjú og sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir hann sem leikmann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert