Úr SingStar yfir í Warzone

Högna Kristbjörg Knútsdóttir.
Högna Kristbjörg Knútsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Högna Kristbjörg Knútsdóttir, einnig þekkt sem „hoggattack“, er 27 ára gamall Warzone-spilari en hún er ein af stelpunum í The Babe Patrol.

Streymir vikulega á GameTíví

Hún spilar vikulega í beinni á GameTíví en þar streymir hún ásamt vinkonum sínum frá því þegar þær spila fyrstu persónu skotleikinn Call of Duty: Warzone en þær hafa einnig verið að prófa aðra leiki.

„Höfum til dæmis prófað Crash Bandicoot, þar sem ég er yfirburða lélegust,“ segir Högna í samtali við mbl.is en hún bætir við að hún sé mjög spennt að prófa Battlefield 2042-leikinn sem kemur út 19. nóvember.

Ákvað að prófa

Það er ekki langt síðan Högna fór að spila Call of Duty en hún og kærastinn hennar keyptu sér PlayStation 4-leikjatölvu í byrjun árs 2019 og segist hún þá hafa ákveðið að prófa Call of Duty í stað þess að horfa bara á kærastann sinn spila.

„Ég byrjaði á því að spila á móti tölvunni í auðveldustu stillingunni til þess að læra á takkana og hvað þetta snerist um,“ segir Högna en henni fannst leikurinn strax mjög skemmtilegur.

Byrjaði í SingStar

Högna spilaði þó fyrst tölvuleikinn SingStar á PlayStation 2 og átti hún þó nokkra SingStar-leiki. Í tölvuleiknum SingStar spreytir fólk sig á söng bæði með vinum sem og einsamall. Hún telur sig ekki góða í að syngja og hafi það verið mömmu hennar og pabba til mikillar skemmtunar.

En úr SingStar yfir í Warzone: Högna segist alltaf vera til í að bæta sig í leiknum en fyrir henni snýst spilunin aðallega um að spila með vinum sínum og skemmta sér.

„Það var einstaklega skemmtilegt þegar við stelpurnar í Babe Patrol náðum sigri í Warzone í beinni,“ segir Högna en hún hafði litla hugmynd um hvað væri að gerast í streymisheiminum áður en GameTíví og ROK fóru að streyma hér á Íslandi.

Ánægð með umfjöllun rafíþrótta á Íslandi

„Fyrir nokkrum mánuðum þá hefði ég örugglega sagt að umfjöllun um rafíþróttir mætti vera meiri en mér finnst hún vera orðin mjög góð í dag,“ segir Högna og þykir henni einstaklega skemmtilegt að fylgjast með allri umræðunni um heimsmeistaramótið í tölvuleiknum League of Legends sem haldið er hér á Íslandi.

Tóku þátt í „Streamer Royal“

GameTíví hélt „Streamer Royal“ mót í tölvuleiknum Warzone og tóku stelpurnar í Babe Patrol m.a. þátt í því móti en þykir Högnu afar vænt um minningarnar sem fylgja því en hún minnist þess einnig þegar Babe Patrol sigruðu leik í Warzone í beinni útsendingu.

Högna hvetur upprennandi rafíþróttamenn til þess að vera ófeimna við að prófa sig áfram, hvort sem það er að spila eða streyma í leiðinni og bætir við að Instagram hafi virkað vel fyrir fjóreykið í Babe Patrol til þess að koma sér á framfæri.

„Takk öll fyrir að horfa á vitleysuna í okkur á miðvikudögum, hlakka til að halda þessu áfram með ykkur.“

Hægt er að fylgjast með Högnu og vinkonum hennar á annaðhvort Stöð 2 esports eða Twitch rás GameTíví öll miðvikudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert