Sjötugur maður bannaður í WoW

World of Warcraft.
World of Warcraft. Grafík/Activision Blizzard

Sjötugur World of Warcraft leikmaður gat ekki spilað WoW í viku eftir að hafa verið stimplaður sem vélmenni (e. bot) og hlotið sex mánaða bann frá leiknum. Leyst var þó úr málinu eftir að Reddit færsla um það vakti athygli.

Á föstudaginn 21. janúar birti barn sjötuga mannsins færslu á Reddit þar sem það óskaði eftir hjálp við að greiða úr vandamálinu og fá banninu aflétt. Samkvæmt færslunni hafði maðurinn fengið sex mánaða bann fyrir að spila á sama hátt og Blizzard reiknar með að vélmenni (e. bots) spili.

„Hann hefur verið að spila WoW frá útgáfu leiksins. Hann er sjötugur maður sem elskar að klára verkefni og hækka um reynsluþrep (e. level),“ segir í Reddit færslunni.

„Þetta er gamall maður sem elskar að spila fantasíuþætti leiksins og heimsins. Hann hefur örugglega búið til tíu veiðimenn upp að þessu marki.“

Samkvæmt síðustu uppfærslu Reddit færslunnar kemur fram að Blizzard hafi aflétt banninu og er þar sýnt skjáskot af því þar sem staðfesting afléttingarinnar sést ásamt skýringu frá Blizzard. Maðurinn hlaut 30 daga frían spilatíma vegna mistakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert