Stíga inn í tunglsljósið með Sims

The Sims hvetja leikmenn til þess að stíga inn í …
The Sims hvetja leikmenn til þess að stíga inn í tunglsljósið með nýjum aukapökkum. Grafík/Electronic Arts

Sims 4 hefur verið að byggja upp spennu hjá aðdáendum fyrir komandi aukapakka með dularfullum skilaboðum á samfélagsmiðlum.

Skilaboðin voru svo skýrð með stríðnisleiðarvísi um áform framleiðsluversins í maí og júní fyrir Sims 4. Leiðarvísirinn var birtur í gær í formi myndbands sem segir fjörið hefjast þegar sólin sest.

Vísbendingar í myndbandinu

Í myndbandinu segir að einn leikjapakki og tveir efnispakkar eru væntanlegir á þessum tíma og má finna vísbendingar um þá í myndbandinu.

Myndbandið sýnir frá konu sem situr fyrir framan sjónvarpið sem sýnir frá fjórum mismunandi senum, en senurnar eru vísbendingar um hvers má vænta af næstu pökkum.

Fyrsta senan sýnir frá börnum að leik í grillveislu. Seinni senan er nokkuð rómantísk, en hún sýnir frá konu í fínum fötum sem sendir fingrakoss til áhorfenda.

Þriðja senan hefur vakið mikla athygli á meðal netverja en hún sýnir frá nýjum heim að næturlagi. Þar glittir í fullt tungl og jafnframt má heyra einhvern, eða eitthvað, spangóla. Í fjórðu senunni er sýnt frá skugga sem færist yfir brunahana á götuhorni.

Heldur þér vakandi fram á kvöld

Það vekur athygli á að leiðarvísirinn feli aðeins í sér áform Maxis fyrir maí og júní, eða einn og hálfan mánuð. Venjulega hafa leiðarvísar Maxis fyrir leikinn verið gefnir út fyrir hvern ársfjórðung, eða þrjá mánuði í senn.

Ný grafísk útfærsla á merkinu var birt á heimasíðu Sims ásamt þremur vísbendingaboxum um væntanlega aukapakka.

„Stígðu inn í tunglsljósið og kannaðu hver þú ert þegar tekur að dimma,“ segir á heimasíðunni.

„Gríptu kvöldið. Fjörið hefst þegar sólin sest. Hvort sem þú ert að klæða þig upp fyrir stefnumót, að skapa minningar í garðinum þínum eða að ganga af göflunum. Þetta tímabil mun halda þér vakandi langt fram á kvöld.“

Þrír aukapakkar eru væntanlegir í Sims á næstu vikum.
Þrír aukapakkar eru væntanlegir í Sims á næstu vikum. Skjáskot/ea.com

Endurspegla aukapakkana

Hér að ofan má sjá vísbendingaboxin sem birt voru á heimasíðu Sims, en þau endurspegla væntanlega aukapakka. Fjólubláu boxin standa fyrir efnispökkunum á meðan sá blái stendur fyrir leikjapakkanum.

Samkvæmt þessu eru efnispakkarnir Chic Nights Out og Cozy Nights In væntanlegir ásamt leikjapakkanum Go Wild.

mbl.is