Íslendingar halda vel á spöðunum

Beau Monde Cohort, BMC, er íslenska landsliðið í Overwatch.
Beau Monde Cohort, BMC, er íslenska landsliðið í Overwatch. Grafík/Karl Vinther

Íslendingar hafa tryggt sér sæti í Contenders-mótaröðinni eftir glæstan sigur BMC gegn Munich Esports Nemesis í Open Division-keppninni.

Beau Monde Cohort, BMC, spilaði mikilvægan leik í Open Division-keppninni gegn Munich Esports Nemesis um helgina. BMC vantaði ekki nema einn sigurleik til þess að spila sig upp í Contenders-mótaröðina, en hún er sú stærsta á eftir OWL (Overwatch League).

Sex og hálf milljón

Contenders hefst í júlí og endar í ágúst, en mótaröðin er stökkpallur fyrir lið til þess að komast í OWL og spila með þeim allra bestu.

Verðlaunapottur mótsins er upp á 50.000 bandaríkjadali, en það gera tæplega 6,5 milljónir íslenskra króna.

„Til að byrja með erum við mjög sáttir við að hafa náð markmiði okkar, að komast í Contenders. Ég held persónulega að við séum ágætlega undirbúnir fyrir næstu skref,“ segir Arnaldur Ingi „fuuthark“, liðsmaður BMC, í samtali við mbl.is.

Leggja allar árar út

Open Division-keppnin er þó ekki afstaðin og segir Arnaldur að baráttan þar sé ekki búin þrátt fyrir að vera búnir að tryggja sér sæti í Contenders.

Næsta skref hjá liðinu er að halda áfram af kappi og sjá hversu langt það kemst. Til þess að komast í úrslit Open Division þarf liðið að vinna alla næstu sex leikina sína, en keppnin er hörð og baráttan því mikil.

„Það kom okkur ekki sérstaklega á óvart að við höfum náð í efstu 32 sætin. Ég held að við höfum allir vitað að við gætum náð þessum árangri, en hins vegar er eitthvað svona aldrei tryggt og við erum bara mjög sáttir við að hafa náð svona langt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert